Lækning Jórunnar

Þegar ég er 23 ára og er nýbúin að eignast Kristínu fer ég að finna að ég er eitthvað skrítin í höndunum. Það byrjar með að ég hætti að geta stjórnað þumalfingri hægri handar, hann stendur beint út í loftið og ég get ekkert notað hann. Prófið bara að skera brauð eða klemma klemmu. Ég gat ekki skrifað nafnið mitt nema með því að setja pennann á milli vísifingurs og löngutangar.

Þetta ágerðist og vísifingur verður óvirkur, vöðvinn í geipinni er alveg horfinn. Hann er lítill og enn í dag, ég er ekki sterk í höndunum. Þetta er svo að byrja að yfirtaka vinstri höndina líka og litla fingur hægri handar. Þetta var ekki glæsileg framtíð hjá okkur Sveini. Við bjuggum þá uppi á lofti í gamla bænum.
Ég fór til taugalæknis í Reykjavík. Hann skoðaði mig vel, lét mig krossleggja fætur og bankaði framan á hnén.

Það voru engin viðbrögð, sama var að segja þegar hann bankaði í olnbogakrikann. Hann sagðist sjá þetta í augunum á mér líka. Hann pikkaði í bringuna á mér og alls staðar sagði hann að það vantaði viðbrögð. Ég féll alveg saman.

Guðrún, tvíburasystir Kristínar tengdamömmu, var mjög trúuð kona og hélt litla kirkju í Hörgshlíð 12 í Reykjavík. Sú kirkja er enn starfandi. Hún gerði mikið af því að biðja fyrir fólki og það voru margir um allt land sem leituðu til hennar. Margir læknuðust fyrir hennar bænir. Það eru líka mjög margir sem enn þann dag í dag muna eftir að hafa heyrt um hana og hennar starf og trúboð.

Við Sveinn fórum til hennar. Það var ekki í fyrsta eða síðasta skiptið sem við leituðum til hennar. Við krupum saman og hún bað fyrir því að ég læknaðist í Jesú nafni.

Nokkrum dögum seinna er ég að sinna stelpunum mínum í herberginu mínu. Þar sem ég sit á rúminu mínu finn ég heitan straum fara um allan líkama minn. Ég vissi strax að þarna væri ég að læknast og sagði Sveini þegar hann kom inn að ég væri læknuð.

Eftir þetta fer ég að fá máttinn í hendurnar hægt og hægt. Deginum þegar ég gat sett þumalfingur á móti öllum hinum fingrunum gleymi ég aldrei.

Ég ætla ekki að reyna að tíunda það hvernig lífið hefði orðið án lækningar. En reyndin er að það hefur verið dásamlegt og ég get aldrei þakkað Guði eins og mér bæri, fyrir að gefa mér heilsuna aftur. Orð ná ekki yfir það. Og ekki má gleyma öllum þeim ánægjustundum sem ég hef haft af handavinnunni minni. Ég get saumað með fínustu saumnál, það er ekkert mál.

Ég sagði taugalækni, sem hefur skoðað hvað að mér gengur í dag, þessa sögu. Hann sagði strax að þetta hefði verið sjálfsofnæmi og að ég hafi verið mjög heppin. Já, ég var mjög heppin.

Jórunn Eggertsdóttir, Lækjartúni