Að uppgötva ást og gleði með notkun heiðarleika, rökhugsunar og hugrekkis.
Lítið 4,5 tommu svarthvítt sjónvarp, sambyggt við segulbandstæki kom upp úr kassanum. Núna getum við horft á fréttirnar, frábært!
Þetta var haustið 1995 þegar við Kolbrún Berglind Grétarsdóttir fluttum saman inn í íbúð í Árbænum. Eitt af því sem kom upp úr hennar kössum var þetta litla tæki.
Ég átti gott uppeldi. Mamma og pabbi voru mjög reglusöm og vinnusöm. Það voru engin stór vandamál í lífi mínu en samt fannst mér eitthvað vanta. Mér fannst eins og ég væri eitthvað öðruvísi en aðrir, að það vantaði eitthvað inn í líf mitt sem ég þó gat ekki áttað mig á hvað væri.
Líf mitt snerist um að fá hrós og uppörvun frá öðrum. Það skipti mig miklu máli að vera metinn af öðrum og að litið væri upp til mín. Í menntaskóla var ég í kór og tók fljótt forystu þar í ýmsum hlutum. Kórstarfið og tónlistin gáfu mér mikið þó ég sjái núna þá dökku hlið að ég nærðist á áliti annarra.
Okkur til undrunar var Omega eina rásin sem virkaði á þessu litla tæki. Við horfðum á hvort annað og hlógum. Jú, við verðum líklega orðin sannkristin áður en veturinn er búinn, predikandi á kassa í miðbænum eða eitthvað! Við settum svo sjónvarpið eitthvert aftur inn í skáp.
Nokkrum dögum seinna sat ég aðgerðarlaus eitt kvöldið. Mér leiddist. Allt í einu kom litla sjónvarpið upp í hugann. Var það örugglega bara þessi kristilega rás sem virkaði? Kannski myndi það virka ef ég sveigði loftnetið svona. Eða voru kannski einhverjar stillingar sem ég hafði misst af? Ég fór og fann það í skápnum. Það hafði ekki breyst. Omega var eina rásin sem virkaði.
Ég byrjaði að horfa. Kannski var það vegna þess að mér fannst gaman að fylgjast með fólki sem var gott í að halda fyrirlestra og ræður. Sumir á Omega gerðu það vel. Ég hafði fengið þjálfun í að dæma ræðukeppnir í skólanum og þetta var því áhugavert.
Næstu vikurnar horfði ég á Omega af og til og horfði þá á ræðumenn og prédikara. Nú gat ég ekki annað en velt fyrir mér því sem þeir voru að segja. Var Guð góður? Hver var Jesús? Hvað gerði Jesús fyrir okkur?
Það kom að því að kvöld eitt lauk ég fjögurra punkta hugsunarferli. Áður en ég byrjaði á því ferli ákvað ég að eina leiðin til að hugsa þetta til enda og fá áreiðanlegar niðurstöður væri að vera einlæglega heiðarlegur og gagnsær við sjálfan mig.
Er Guð til?
Í fyrsta lagi, var Guð til eða ekki? Þegar ég leit í kringum mig og innra með sjálfum mér tók ég eftir því að það hlyti að vera til Guð; öll hönnunin sem ég sá í náttúrunni gæti ekki verið tilviljun.
Að minnsta kosti var mun erfiðara að sætta sig við tilviljanaskýringuna. Með öðrum orðum þurfti meiri trú til að trúa því að allt sem ég sæi í kringum mig væri afleiðing tilviljunar en að trúa því að það væri Guð sem hefði hannað það.
Það var því líklegra en ekki að Guð væri til. Ég gat ekki sannað það eins og þú myndir sanna að summa horna á þríhyrningi sé 180 gráður. Hins vegar getur maður ekki lifað lífi eingöngu byggðu á slíkum sönnunum. Notkun skynsemi, rökfræði og staðreynda gengur lengra en það.
Hver er Guð?
Í öðru lagi, hver var þessi Guð? Hvaða eiginleikum bjó hann yfir? Var hann til dæmis góður eða slæmur? Það sem ég sá í kringum mig, og það sem meira er, það sem ég fann innra með mér, leiddi mig að þeirri niðurstöðu að það værum við mannfólkið sem klúðruðum hlutunum.
Stundum meiddi ég aðra og olli skaða í kringum mig. Þetta var það sem ég hafði lært og þetta var eins alls staðar. Milljónir manna um allan heim ollu skaða svipað og ég. Þegar ég sá skaðann sem ég olli áttaði ég mig á því að allir voru eins og ég. Við völdum öll skaða. Summan af öllum þessum skaða útskýrði yfirgnæfandi meirihluta þess sem er brotið í þessum heimi. Ég var vondur og gat ekki breytt því á eigin spýtur. Ég hafði reynt og mistekist.
Enn fremur virtist ólíklegt að vondur Guð myndi hanna fegurð eins og þá sem við sjáum í sköpuninni. Fegurð og gæði benda til gæsku. Þar að auki var ekki mikill tilgangur með því að trúa á vondan Guð; þess vegna dró ég þá ályktun að Guð væri góður.
Get ég þekkt Guð?
Í þriðja lagi hlyti Guð, ef hann væri góður, að hafa veitt okkur venjulegu fólki leið til að kynnast sér. Við myndum ekki geta þekkt Guð ef hann lokaði sig af vegna þess að hann er Guð og við erum aðeins menn.
En við ættum ekki að búast við því að góður Guð loki sig af. Góður Guð myndi vilja vera með okkur án þess að neyða okkur til þess. Okkur væri frjálst að velja.
Í sjónvarpinu sá ég stóra leikvanga þar sem margir tóku við Kristi í einu. Ég man að ég var efins um þá hugmynd að maður þyrfti að vera í svona hópaðstæðum til að finna Guð. Hins vegar, ef ég gæti tengst Guði heiðarlega og án hópþrýstings, væri ég til í að kanna það.
Biblían vísar veginn
Guð var til, Guð var góður og Guð hafði gert mér kleift að kynnast honum. Á grundvelli þessara þriggja atriða komst ég að þeirri niðurstöðu að það væru að minnsta kosti nægar áreiðanlegar upplýsingar í Biblíunni til að tengjast Guði.
Ég var ekki kunnugur Biblíunni, en ég komst að þeirri niðurstöðu að ef Guð væri góður væri þar að minnsta kosti nóg til að einhver sem vildi af einlægni komast í samband við Guð gæti gert það.
Nú þegar þessi niðurstaða blasti við mér skynjaði ég jafnframt að næstu skref gætu haft mikil áhrif á líf mitt. Þetta var svipað því að standa á háum kletti og íhuga að stökkva niður í vatnið fyrir neðan. Mér varð ljóst að það var aðeins ein leið til að sannreyna hugmyndir mínar. Ég þurfti einfaldlega að spyrja Guð hvort hann hefði einhvern áhuga á mér. Ég þurfti að vita hvort Guð væri til staðar og hvort ég gæti haft samband við hann. Það er að segja, ég varð að fylgja eftir ákvörðun minni um að halda uppi heiðarleika og gagnsæi. Ef ég myndi ekki bregðast við væri ég að ljúga að sjálfum mér.
Ákvörðun og framkvæmd
Kolbrún var sofandi en ég var glaðvakandi. Ég ákvað að spyrja Guð með einföldum orðum:
Guð, ég hef heyrt að þú hafir sent son þinn Jesú til að deyja fyrir syndir mínar. Ef þú ert þarna og vilt hafa eitthvað með mig að gera, þá er ég hér.
Um leið og ég opnaði munninn var Guð til staðar. Hann umvafði mig og úthellti ást sinni yfir mig. Þetta var eins og að uppgötva tæra og ferska lind, mitt í þurri eyðimörk.
Nærvera Guðs verður aldrei þreytt, það er alltaf jafn gefandi að eiga hann að og fá að reyna kærleika hans. Ég vona að sem flestir fái að upplifa eitthvað svipað í sínu lífi.
Kolbrún komst smám saman til trúar næstu mánuðina á eftir. Í janúar 1996 ákváðum við svo að gifta okkur. Brúðkaupsdagur okkar var 1. september 1996. Það var dagur fögnuðar og sigurs.
Árin eftir þetta hafa verið ævintýri. Trúfesti Guðs er það sem hefur skinið í gegn.
Hver er þín saga?
Núna þekkir þú mikilvægan hluta af minni sögu. Sögur okkur eru ólíkar en það er eitt sem við eigum sameiginlegt: við þurfum á Guði að halda. Við erum sköpuð til að taka við kærleika hans og til að elska hann.
Hér ein leið til þess að biðja, ef þú vilt tala við Guð:
Guð, ég hef heyrt að þú hafir sent son þinn Jesús til að deyja fyrir syndir mínar. Ef þú ert þarna og vilt eitthvað með mig hafa, þá er ég hér.
Þetta gæti verið skref fyrir þig, eins og það var fyrir mig. Ef þú hefur beðið þessarar bænar eða vilt hjálp með hana skaltu hafa samband. Ég geri mitt besta til að hjálpa þér.
Ágúst Valgarð Ólafsson, Selfoss, Ísland, haust 2024.
Um Ágúst Valgarð
Ágúst Valgarð Ólafsson hefur yfir 20 ára reynslu sem tölvunarfræðingur en einnig sem forstöðumaður og kristniboði í ýmsum verkefnum, bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum. Árið 2024 færði hann sig 100% yfir í að starfa sem kristniboði á Íslandi.